Selva - Val Gardena 2017
Skíðaferð 2017 til Selva - Val Gardena 2017
Við pabbi höfum oft talað um það að fara aftur saman á skíði. Við vorum nokkuð duglegir þegar ég var unglingur og aðeins á fullorðinsárum. En svo einhvern veginn hættum við þessu og við tóku aðrir tímar. Alltaf poppaði þetta spjall upp af og til. Ég hef ekki stigið á skíði í 22 ár. Nánar tiltekið hef ég ekki farið á skíði síðan janúar 1995. Þá voru það Bláfjöllin. Ég hef sem sagt prófað Bláfjöll og Skálafell. Annað hef ég ekki prófað, nema jú einhvern tímann rölti ég upp Svartsengið eða Illahraun og rúllaði niður þar.Í fyrra kom þetta spjall upp aftur hjá mér og pabba. Pabbi var ákveðinn að fara á "staðinn sinn" Selva í Val Gardena í ítölsku ölpunum. Ég ákvað bara að slá til. Þetta var eitthvað svo langt í burtu. Planið var að halda upp á 80 ára afmælið hans pabba og njóta þess að vera saman. Unnur, Magni og Jón ætluðu líka og svo auðvitað Erla. Jón gat svo ekki komið með vegna vinnu.
Anyway, áður en ég vissi af þá var komið að ferðinni. Ég var sestur í flugvél á leið til Munchen. Ég varð að fljúga á föstudeginum og hitti þau svo á laugardeginum. Það sem skyggði óneitanlega á þetta allt saman var flensa, sem var farin að herja á mig, og gríðarleg óvissa um að ég gæti yfirhöfuð staðið á skíðum. Ég margtékkaði tryggingar, samlagsmál og ég veit ekki hvað. Var bara nokkuð stressaður yfir þessu.
Ég innritaði mig inn á hótel rétt hjá Munchen flugvellinum. Hótelið heitir Moxy. Alveg ljómandi hótel.
Þessi styttugarmur var í anddyrinu.
Ég gerði fátt annað en að innrita og svo upp á herbergi með ofsalega mikið af Panodil Hot og óbilandi trú á að ég gæti hrist flensuna af mér.
Mér leið jafnilla þegar ég vaknaði. Ég kom mér út á flugvöll og hitti gengið þar. Við tókum svo leigubíl frá Munchen til Selva. Ferðin var alveg eins og við var að búast. Þó var umferðin ægilega mikil svo að bílstjórinn ákvað að fara smá af hraðbrautinni yfir á sveitavegina.
Stoppuðum meðal annars í þessum bæ til að taka myndir.
Túrinn var ca. 4 tímar og við vorum komin á Hótel Freina rétt fyrir sex á laugardeginum. Ég var ennþá að drepast úr flensunni og fór nokkuð snemma í bólið. Reyndar áður fór ég og keypti skíðapassa og leigði skíði. Ég ákvað að láta vera að byrja á sunnudeginum og það varð úr að ég lá í bólinu meira og minna á sunnudeginum. Bónusinn við þá ákvörðun var að sjá úrslitin í opna ástralska í Tennis. Nadal og Federer mættust og það var alveg ljómandi leikur. Gaman að sjá Svisslendinginn taka átjánda stórmótið.
Seinni partinn á sunnudeginum var svo haldinn smá kokteill á hótelinu til heiðurs pabba. Pabbi varð áttræður og er bara ótrúlega flottur karlinn. Ég vona að ég verði svona hress þegar ég næ þessum aldri. Eiginlega magnað að hann var kominn aftur á skíðin eftir ökklabrotið í Austurríki fyrir tveimur árum.
Um kvöldið fékk pabbi svo köku frá hótelinu.
En eins og áður segir var maturinn frábær. Smá matar porn hérna að neðan.
Jæja, á mánudeginum kom að því, sem ég hafði eiginlega kviðið fyrir. Ég smellti skíðunum á mig í fyrsta skiptið í 22 ár. Ég fór seinast á skíði í janúar 1995. Ég var drullu nervös. Við byrjuðum í skólabrekkunum og svei mér þá, ég hafði bara engu gleymt. Skíðaði niður brekkuna eins og ég hefði bara ekki gert annað. Jú, ég var nú eitthvað ryðgaður, en stóð bara flottur. Ég var að rifna af stolti. Þessi brekka var bara ekki nóg svo ég færði mig í erfiðari brekkur og bara skíðaði restina af deginum. Þetta tók þokkalega á lærin. Saunað um kvöldið var velkomið og ég var bara sofnaður fyrir 22 um kvöldið.
Daginn eftir bauð pabbi mér með í smá kennslu. Við fengum kennara til að skerpa aðeins á kunnáttunni. Það var mjög gott og svo var bara skíðað eins og hægt var. Lyfturnar lokuðu um klukkan 5 á daginn. Svo var farið í sauna, kvöldmat og slökun. Hreinn og beinn lúksus.
Svæðið bauð upp á 1200 km af brekkum og 200 lyftur. Smá munur frá Bláfjöllunum.
Ferðinni lauk svo síðasta laugardag. Frábær vika að baka með góðu fólki. Stórkostlegt að fá að upplifa þetta og alveg á hreinu að skíðaferðir verða partur af mínu lífi í framtíðinni.
Ég smelli að lokum mynd af mér og pabbi í hádegisbjórnum.
Ég stefni á skíðaferð á næsta ári. Kannski Akureyri eða nágrannalöndin.
kveðja í bili,
Arnar Thor
Ummæli
Virðist ekki hafa verið mikill snjór í fjöllunum í kring. Væntanlega framleitt fyrir brekkurnar; þannig er þetta hér líka.
/Helgi.